Nýbirtar tölur Seðlabanka Íslands um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins bera vott um góða ytri stöðu þjóðarbúsins. Viðskiptajöfnuður var jákvæður um 100 milljarða króna og hefur afgangurinn aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi. Myndarlegur afgangur er af þjónustuviðskiptum við útlönd sem er að langstærstu leyti drifinn áfram af ferðaþjónustu. Þetta segir í greiningu Arion banka .

„Þetta er nokkuð meiri viðskiptaafgangur en við höfðum áætlað í hagspá okkar og skýrist það einkum af þrennu. Í fyrsta lagi jukust ferðaþjónustutekjur á hvern erlendan ferðamann í erlendri mynt meira en við áætluðum, í öðru lagi voru aðrir liðir þjónustuviðskipta lítillega hagstæðari en við höfðum spáð og loks voru frumþáttatekjur við útlönd jákvæðar. Það síðastnefnda kemur sérstaklega á óvart, enda hafði t.d. Seðlabankinn spáð því að jöfnuður frumþáttatekna myndi vera neikvæður um 10 ma.kr. á árinu. Aftur á móti hefur jöfnuður frumþáttatekna verið jákvæður síðustu fjóra ársfjórðunga og jákvæður um 33 ma.kr. fyrstu 9 mánuði ársins. Það sem helst skýrir þessa hagstæðu þróun er að nettó vaxtagreiðslur til útlanda hafa dregist verulega saman, en það helgast fyrst og fremst af sífellt batnandi erlendri stöðu þjóðarbúsins,“ kemur einnig fram þar.

Hætta á gjaldeyriskrísu minni en oft áður

Erlend staða íslenska þjóðarbúsins er jákvæð sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu eða 60 milljörðum króna. Erlenda staðan hefur ekki verið eins hagstæð frá upphafi mælinga. Bætt erlend skuldastaða - sem þýðir að Ísland sé orðinn hreinn lánveitandi við útlönd - þýðir að hættan á gjaldeyriskrísu sé minni en oft áður. „Ör gjaldeyrisforðasöfnun Seðlabankans, sem á sér heldur engin fordæmi hér á landi, dregur enn fremur úr líkum á gjaldeyriskrísu og hröðu gengisfalli,“ bendir greiningardeildin einnig á.

Ástæða til að ganga hægt um gleðinnar dyr

Að lokum segir þó í greiningu Arion banka: „Þar sem gengi krónunnar hefur styrkst síðustu 78 af 100 viðskiptadögum og raungengið er á svipuðum slóðum og á árunum 2005-2007 er ástæða til að ganga varlega inn um gleðinnar dyr. Tölur um utanríkisviðskipti gefa lítið tilefni til að ætla að krónan veikist verulega á næstunni. Hins vegar, líkt og áður sagði, koma áhrif snarpra gengisbreytinga fram með nokkrum töfum. Snörp styrking krónunnar mun hafa vaxandi neikvæð áhrif á íslensk útflutningsfyrirtæki og þar með atvinnulíf og vinnumarkað. Að sama skapi mun innflutningur og neysla færast í vöxt og halli á vöruskiptum færast í aukana. Frá því sjónarhorni erum við þeirrar skoðunar að krónan eigi í besta falli litla gengisstyrkingu inni.“