Afgangur var á viðskiptum Kínverja við útlönd í marsmánuði en það er öfugt við það sem spáð hafði verið. Afgangurinn var 5,35 milljarðar bandaríkjadala samanborið við 31,48 milljarða dollara halla í febrúar. Viðskiptahalli hafði þá ekki verið meiri í áratug.

Þrátt fyrir að niðurstaða marsmánaðar sé betri en búist var við jókst innflutningur í raun mjög lítið eða um 5,3%. Lítil neysla innanlands þykir hættumerki en samdráttur hefur verið í kínversku efnahagslífi undanfarið. Frá þessu segir á vef breska dagblaðsins Telegraph.

Útflutningur frá Kína til Evrópu dróst saman um 1,8% á fyrstu þremur mánuðum ársins. Til samanburðar jókst útflutningur frá Kína til Bandaríkjanna um 12,8% á sama tímabili.