Afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd nam 51 milljarði króna á fjórða ársfjórðungi 2019, sem er ríflega tíföldun frá 4,9 milljarða króna jöfnuði á sama tíma fyrir ári.

Hann hefur þó lækkað um 18,9% frá þriðja ársfjórðungi þegar afgangurinn nam 62,9 milljörðum króna að því er lesa má úr bráðabirgðayfirliti Seðlabanka Íslands yfir greiðslujöfnuð við Ísland og erlenda stöðu þjóðarbúsins.

11,8 milljarða króna halli á vöruviðskiptajöfnuði var jafnaður út með 55,7 milljarða króna afgangi á þjónustujöfnuði á fjórða ársfjórðungi, en á tímabilinu var viðskiptaafgangurinn 46,1 milljarði króna hærri en á sama ársfjórðungi árið áður.

Þar af voru 25,8 milljarðar vegna hagstæðari vöruviðskipta, en þjónustuviðskiptin voru hagstæðari um 19,4 milljarða. Voru þjónustugjöldin 9,4 milljörðum lægri en áður meðan þjónustutekjurnar voru 10 milljörðum krónum hærri.

Eignirnar jukust um 84 milljarða

Hrein staða við útlönd batnaði um 84 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og var hún jákvæð um 667 milljarða króna, eða sem nemur 22,5% af vergri landsframleiðslu. Námu hreinar eignir þjóðarbúsins 3.900 milljörðum íslenskra króna í árslok en skuldurnar 3.233 milljörðum króna.

Lækkuðu skuldirnar um 77 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi, meðan erlendu eignirnar lækkuðu um 25 milljarða vegna fjármagnsviðskipta. Loks komu jákvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins vegna gengis- og verðbreytinga sem námu 43 milljörðum króna, einkum vegna 8,3% verðhækkana á erlendum verðbréfamörkuðum.