Gengi HB Granda lækkaði um 2,64% í 607 milljóna króna veltu í viðskiptum gærdagsins í Kauphöllinni. Lækkunin kom í kjölfar frétta af ákvörðun Rússa um að leggja innflutningsbann á vörur frá Íslandi og öðrum þjóðum.

HB Grandi sendi frá sér tilkynningu eftir hádegi í gær þar sem fram kom að tekjur félagsins gætu lækkað um 10 til 15 milljónir evra á ársgrundvelli vegna viðskiptabannsins. Kom þar meðal annars fram að 17% tekna fyrirtækisins á síðasta ári hefðu komið úr viðskiptum við rússneska aðila.

Sigurður Örn Karlsson, sérfræðingur hjá IFS greiningu, segir að staðan sé vissulega ekki auðveld fyrir HB Granda. Hann bendir hins vegar á að í uppgjöri fjórða ársfjórðungs hjá félaginu megi sjá að það afskrifaði þá nokkuð af kröfum til Rússlands, svo staðan hafi ekki verið mjög góð fyrir.

Fá mun lægra verð fyrir vöruna

Félagið á nú 6 milljónir evra í útistandandi kröfum í Rússlandi. Sigurður segir viðskiptabannið hins vegar slæmar fréttir fyrir HB Granda og þá samninga sem annars hefðu gengið í gegn. HB Grandi áætlar gróflega að tekjur félagsins gætu lækkað um 10-15 milljónir evra á ársgrundvelli. „Gróflega gæti það haft neikvæð áhrif á framlegð félagsins um 4-5 milljónir evra á ársgrundvelli miðað við 35% framlegð uppsjávarfisks hjá félaginu,“ segir hann.

„Þeir fara úr sölu á þessum afurðum og flytja mikið yfir í mjöl og lýsisvinnslu og þá fá þeir mun lægra verð fyrir vöruna en að sama skapi lækkar kostnaður við vinnsluna á móti. Mjölverð hefur lækkað nokkuð frá áramótum og maður hefði búist við því að það myndi hækka aftur með vetrinum, en ef þessi sala fer í mjölvinnslu, og þá líka frá fleiri sjávarútvegsfyrirtækjum, þá eykst framboðið töluvert á mjöli sem gæti dregið úr verðhækkunum sem kannski mátti búast við,“ segir Sigurður Örn.