Í apríl fagnar Viðskiptablaðið 20 ára afmæli. Í tilefni af því rifjar blaðið upp áhugavert fréttaefni úr sögu blaðsins. Þann 22. Júní 1994 birtist frétt um að Vinnuveitendasambandið hefði áhyggjur af deilum Íslendinga við Norðmenn.

Hún var svohljóðandi:

Vinnuveitendasamband Íslands telur nauðsynlegt að fiskveiðideilur Íslands og Noregs verði leystar hið allra fyrsta. Á fundi framkvæmdastjórnar VSÍ var samþykkt áskorun til íslenskra stjórnvalda um þessi efni. Þar lýsa samtökin einnig áhyggjum yfir stjórnlausri sókn í karfastofna utan fiskveiðilögsögu Íslands. Fundur framkvæmdastjórnar Vinnuveitendasambands Íslands, sem haldinn var í gær, sendi frá sér ályktun um nauðsyn fiskveiðisamninga við erlend ríki. Í samþykkt framkvæmdastjórnarinnar segir meðal annars:

„Framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til að leita þegar samninga við Noreg í yfirstandandi deilum þjóðanna um fiskveiðihagsmuni á norðurslóðum. Brýnt er að ná hið fyrsta samkomulagi um uppbyggingu og skiptingu veiðiheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum, því ætla má að þýðing hans geti farið vaxandi á næstu árum. Samhliða er mikilvægt að leiða til lykta með samningum deilur um veiðiheimildir við Svalbarða og í Smugunni. Margþættir og um margt sameiginlegir hagsmunir Norðmanna og Íslendinga á sviði sjávarútvegsmála knýja á um viðræður, sem taki með sanngjörnum hætti á hagsmunum beggja aðila í þessum málum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .