Í apríl fagnar Viðskiptablaðið 20 ára afmæli. Í tilefni af því rifjar blaðið upp áhugavert fréttaefni úr sögu blaðsins. Þann 7. júní 1994 birtist frétt um að Samskip hefði samið við Þjóðverja um nána samvinnu.

Hún var svohljóðandi:

Samskip standa í viðræðum við þýska skipafélagið Bruno Bischoff, sem staðsett er í Bremen, um nána samvinnu og hlutafjárkaup. Ólafur Ólafsson, framkvæmdastjóri Samskipa, segir að viðræður séu langt komnar og það staðfestir talsmaður þýska félagsins, H. Behrens. Hann vill á hinn bóginn ekki staðfesta að sú ákvörðun hafi verið tekin innan þýska fyrirtækisins að það verði eitt þeirra fyrirtækja sem taka þátt í hlutafjáraukningu Samskipa. Eins og fram hefur komið hafa Samskip staðið í umfangsmiklum viðræðum við nokkur íslensk fyrirtæki og erlend um að þau komi inn í fyrirtækið sem eignaraðilar, samfara því að Landsbankinn hefur ákveðið að færa niður hlutafé sitt.

Aðalfundur Samskipa var haldinn í gær og þar var lagður fram ársreikningur félagsins sem hljóðar upp á 484 milljóna króna tap á síðasta ári. Fundinum var frestað um óákveðinn tíma á meðan stjórn félagsins leiðir til lykta þær viðræður sem í gangi eru. Ekki hefur fengist endanlega staðfest hvaða íslensk fyrirtæki hafa verið í viðræðum við Samskip, en ljóst er orðið að það eru ekki þau fyrirtæki sem tengdust Sambandinu.