*

þriðjudagur, 2. mars 2021
Innlent 6. júlí 2018 11:00

Viðskiptablaðið flytur í Ármúla 10

Skrifstofa og símanúmer Viðskiptablaðsins opna aftur eftir helgi, en hægt er að ná í starfsmenn í gegnum netpóst.

Ritstjórn
Viðskiptablaðið verður framvegis til húsa á efri hæð Ármúla 10.

Viðskiptablaðið stendur nú í flutningum, en starfsemi blaðsins, ásamt öðrum fjölmiðlum Mylluseturs, Fiskifréttum, Eiðfaxa og Frjálsri verslun, verður framvegis í Ármúla 10.

Meðan á flutningunum stendur er því miður ekki hægt að hringja í símanúmer blaðsins, en starfsmenn eru við vinnu og svara tölvupóstum, sem hægt er að finna á vef blaðsins. Jafnframt er hægt að senda fyrirspurnir á ritstjorn@vb.is, eða vb@vb.is.

Engin truflun verður á útgáfu blaðsins vegna flutninganna og vefsíðan verður áfram virk. Hægt er að skrá sig í áskrift hér, en blaðið kemur út vikulega á fimmtudögum. Viðskiptablaðið var stofnað 20. apríl árið 1994 sem vikublað um viðskipti og efnahagsmál.

Viðskiptablaðið flytur úr Nóatúni 17 þar sem það hefur verið til húsa frá árinu 2010, en þar áður hefur blaðið meðal annars verið staðsett á Mýrargötu, Hlíðasmára og á Fiskislóð úti á Granda. Þess má geta að þar með er blaðið komið í næstu götu við Síðumúlann, þar sem blaðið var einnig áður, en sú gata fékk á sínum tíma viðurnefnið Blaðsíðumúlinn vegna þeirra fjölmörgu blaða og tímarita sem þar voru staðsett.

Fyrst eftir stofnun Viðskiptablaðsins kom blaðið út á miðvikudögum en í janúar 2004 breyttist útgáfan en frá þeim tíma kom blaðið einnig út á föstudögum. Megináhersla Viðskiptablaðsins er sem fyrr á viðskipti og efnahagsmál, auk þjóðmála. Auk þess er lögð áhersla á fjölbreytt viðtöl og úttektir, auk margskonar annars efnis.

Viðskiptablaðinu var síðan breytt í dagblað í febrúar 2007 og kom út fjórum sinnum í viku, frá þriðjudegi til föstudags, fram í nóvember 2008 þegar því var breytt í vikublað á nýjan leik. Frá og með desember 2008 kemur blaðið út á fimmtudögum. Fiskifréttir, sérblað um sjávarútvegsmál, fylgir með í hverri viku auk þess sem Frjáls verslun og önnur tímarit sem og ýmis konar sérblöð Viðskiptablaðsins koma út nokkrum sinnum á ári.