Ingjaldur Hannibalsson, deildarforseti Viðskiptafræðideildar og Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri, undirrituðu nýverið samstarfssaming á milli Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og Hagstofu Íslands. Markmið samningsins er að auka samstarf Hagstofunnar og Viðskiptafræðideildar á sviði rannsókna með því að veita nemendum í meistaranámi tækifæri til að vinna lokaverkefni sitt í samstarfi við Hagstofu Íslands.

Samningurinn nær eingöngu til verkefnavinnu nemenda í meistaranámi í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands við gerð lokaverkefnis.

„Með samstarfssamningnum er metnaðarfullum nemendum gert kleift að vinna að mikilvægum rannsóknum á íslensku efnahags- og atvinnulífi og þannig auka við þekkingu sína og færni við meðferð gagna og reynslu sína af rannsóknarvinnu,“ segir tilkynningu á vef Háskóla Íslands.