*

laugardagur, 16. október 2021
Erlent 26. maí 2020 13:00

Viðskiptagólfið opnar á ný

New York kauphöllin hefur opnað viðskiptagólf sitt á ný eftir tveggja mánaða lokun vegna faraldursins.

Ritstjórn
epa

Kauphöllin í New York opnaði hið fræga viðskiptagólf sitt í dag eftir tveggja mánaða lokun vegna heimsfaraldursins. Hins vegar verða ýmsar takmarkanir og kvaðir á viðskiptagólfinu en búist er við að einungis fjórðungur verðbréfamiðlara fái að snúa aftur til að byrja með. BBC greinir frá.

Miðlarar þurfa að forðast almenningssamgöngur, klæðast grímum og fylgja félagsforðunar (e. social distancing) ráðstöfunum. Við inngöngu á viðskiptagólfið verða miðlararnir skimaðir og mælt verður hitastig þeirra. Þeir þurfa einnig að skrifa undir skaðleysisyfirlýsingu, sem firrar Kauphöllina ábyrgð í tilviki smita.

Faraldurinn hefur reynst erfiður fyrir New York en um 200 þúsund smit og meira en 20 þúsund dauðsföll tengd veirunni hafa átt sér stað í borginni. 

New York kauphöllin er einn af fáum verðbréfamörkuðum sem starfrækir enn viðskiptagólf. Flestir aðrir verðbréfamarkaðir starfa eingöngu stafrænt í dag. Stacey Cunningham, forseti kauphallarinnar, tístaði fyrr í mánuðinum að opnun viðskiptagólfsins væri mikilvægt skref í að koma bandaríska hagkerfinu aftur í gang og tók fram að gólfið væri mikilvægt fyrir smærri fyrirtæki.