Viðskiptahalli Bandaríkjanna jókst um 27% milli ára og nam 859 milljörðum Bandaríkjadala árið 2021. Þetta er mesti viðskiptahalli sem hefur verið í Bandaríkjunum síðan mælingar hófust árið 1960. Fyrra metið var árið 2006 þegar hallinn nam 763 milljörðum dala.

Hinn mikli viðskiptahalli á árinu er til marks um breyttar neysluvenjur Bandaríkjamanna. Neytendur eyddu stórum fjárhæðum í innfluttar vörur á borð við raftæki og húsgögn en ferðuðust minna og fóru síður út að borða. Hækkandi verð á hrávörum eins og olíu og á matvöru hefur einnig sett strik í reikninginn á innflutningshliðinni

Viðskiptahalli Bandaríkjanna við Kína óx um 14,5% milli ára og nam 335 milljörðum dala á nýliðnu ári. Hallinn við Kína var mestur árið 2018, þegar hann nam 418 milljörðum dala.