Viðskiptahalli Bandaríkjanna í fyrra nam 948 milljörðum dala og hefur aldrei verið meiri. Viðskiptahallinn, mismunur á verðmæti inn- og útflutnings, jókst um 12,2% á frá árinu 2021 þegar hann nam 845 milljörðum dala.

Verðmæti innfluttrar vöru og þjónustu jókst um 556 milljarða dala, eða um 16,3% á milli ára, og nam tæplega 4 þúsund milljörðum dala. Vöruinnflutningur jókst um 426 milljarða dala og verðmæti innfluttrar þjónustu jókst um 130 milljarða dala.

Bandarískur útflutningur jókst um 17,7%, og eða um 453 milljarða dala, og nam rétt yfir 3 þúsund milljörðum dala. Aukninguna má að stærstum hluta rekja til 191 milljarða dala aukningu á verðmæti útflutnings á hráolíu, þotueldsneyti og öðrum olíuafurðum ásamt gasi. Evrópu hefur til að mynda reitt sig meira á bandarískar orkuvörur eftir stríðið í Úkraínu.

Í umfjöllun Financial Times er bent á að viðskiptajöfnuður Bandaríkjanna við Kína hafi verið neikvæður um 383 milljarða dala í fyrra.