Halli á viðskiptajöfnuði í Bandaríkjunum jókst um 0,2% á milli mánaða í júlí og nemur hann nú 46,5 milljörðum dala, jafnvirði rétt rúmra 5.100 milljarða íslenskra króna. Hallinn hefur ekki aukist í fjóra mánuði, samkvæmt upplýsingum bandaríska viðskiptaráðuneytisins. Þetta er ekki jafn vond staða og reiknað var með en meðalspá Bloomberg hljóðaði upp á tæplega 40 til 47 milljarða halla á vöruskiptum.

Bloomberg-fréttaveitan bendir á að ástæðan fyrir þessari þróun mála sé hæging í heimshagkerfinu og minni eftirspurn nú en áður eftir bandarískum vörum í helstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna á sama tíma og verð á innfluttum vörum hækkaði. Helstu áhrifavaldarnir eru stöðnun á meginlandi Evrópu og kólnun í helstu nýmarkaðsríkjum. Þar fer Kína fremst í flokki en af 46,5 milljarða dala halla skrifast 29,4 milljarða dala á viðskipti við landið.