Kína hefur tilkynnt um að í fyrsta skipti í þrjú ár var halli á viðskiptum landsins við umheiminn í febrúarmánuði síðasta. Síðast gerðist það að meira var flutt inn heldur en út í einum mánuði í landinu í febrúar árið 2014.

Aukin eftirspurn og hærra hráefnaverð leiddi til þess að innflutningur hækkaði í verði um 38,1% miðað við sama mánuð fyrir ári, en útflutningur lækkaði hins vegar um 1,3% milli ára.

Nam því viðskiptahallinn 9,2 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem jafngildir 1.005 milljörðum íslenskra króna, en greiningaraðilar höfðu talið að afgangur yrði á viðskiptum í mánuðinum sem myndi nema 25,8 milljörðum dala.

Líklegt er að löng frí sem eru á þessum tíma í kringum nýtt tunglár samkvæmt kínversku dagatali hafi áhrif á tölurnar, og að viðskiptaafgangur verði á ný í næsta mánuði að mati greiningaraðilanna.

„Við efumst um að núverandi hraði innflutning geti haldist, og er aðeins tímaspursmál þangað til við sjáum innanlandseftirspurn dragast saman,“ segir Julian Evans-Pritchard frá Capital Economics í samtali við BBC .

Á árinu 2016 var hægast hagvöxtur í Kína í 26 ár, en jafngildi forsætisráðherra landsins, Li Keqiang tilkynnti um það í þinginu um helgina að hagvaxtarmarkmið landsins hefði verið lækkað niður í 6,5%.