Viðskiptahalli Japans nam 6,9 trilljónum jena, andvirði um 9.900 milljörðum króna, í fyrra. Ástæðurnar eru m.a. aukinn kostnaður við innflutning á eldsneyti eftir slysið í Fukushima kjarnorkuverinu og minnkandi útflutningur vegna hás gengis jensins og áframhaldandi stirðleika í samskiptum við Kína.

Í frétt Financial Times segir að þetta sé annað árið í röð sem halli er á viðskiptum Japans við útlönd, en þar áður mældist síðast viðskiptahalli árið 1980.

Stjórnvöld í Tokyo hafa ákveðið að slaka á peningastefnunni og er það gert til að ýta undir útflutning. Jenið hefur veikst um 10% frá því í nóvember, en gengi gjaldmiðilsins hefur styrkst nær stöðugt frá því að efnahagskreppan hófst haustið 2008.