*

þriðjudagur, 19. janúar 2021
Innlent 22. ágúst 2020 19:01

Viðskiptahemill en ekki hraðall

Startup Westfjords, leggur í ár áherslu á að fá íslenska þátttakendur í svokölluðum viðskiptahemli á Þingeyri.

Höskuldur Marselíusarson
Ítalinn Andrea Barbieri tók við stjórn sjálfseignarstofnunarinnar Blábankans, sem staðsett er í gamla Landsbankanum á Þingeyri, í sumar, en þar er miðstöð þjónustu og frumkvöðlastarfs í bænum.
Aðsend mynd

Þorpið Þingeyri sem er á miðjum Vestfjarðakjálkanum virðist kannski ekki augljósasti staðurinn fyrir frumkvöðla alls staðar að úr heiminum til að safnast saman og vinna í sínum verkefnum. Þó verður Startup Westfjords haldið í bænum 12. til 18. október næstkomandi í þriðja sinn.

Ítalinn Andrea Barbieri, sem er framkvæmdastjóri Blábankans sem heldur utan um verkefnið, kallar vinnustofuna sem ætluð er frumkvöðlum með viðskiptahugmynd eða nýsköpunarverkefni þó ekki hefðbundinn viðskiptahraðal. Þess í stað snúa þeir sem standa að verkefninu hugtakinu á hvolf og tala um „decelerator" á ensku eða viðskiptahemil á íslensku um verkefnið.

Önnur nálgun á frumkvöðlavinnu

„Hugmyndin er að gefa þeim sem standa að nýsköpunarverkefnum aðra nálgun á frumkvöðlavinnu, það er að vera andstaðan við hraðal þar sem einblínt er á vöxt og farsæld félagsins strax, heldur gefa þátttakendum tíma og rými. Svo hugmyndin, sem komst á laggirnar undir stjórn forvera míns í starfi, Arnars Sigurðssonar, er að vera ákveðinn hemill til að kúpla sig út og vinna að þróunarverkefnum í öðrum og rólegri lífstakti í afslöppuðu umhverfi.

Í ár munum við svo ekki bara einblína á fjármála- og viðskiptahlið frumkvöðlastarfseminnar heldur líka tala um mannlegu hliðina á því, hvernig á að vinna sig í gegnum erfiðleikatímabil, sýna seiglu og hvernig best er að skipuleggja starfið meðan setja þarf hausinn undir sig og þramma áfram," segir Andrea, en hægt er að sækja um þátttöku til loka ágústmánaðar á startupwestfjords.is.

„Síðustu ár höfum við verið með um 10 þátttakendur hvert ár, en í fyrra voru umsóknirnar um 70. Þeir sem valdir eru til þátttöku fá hana ókeypis sem og gistinguna meðan á verkefninu stendur, en svo bjóðum við þeim viðbótarviku svo þeir geti nýtt aðstöðuna og unnið hér sem og notið lífsins á Þingeyri og stórbrotinnar náttúrunnar hérna í kring. Við reynum að halda vinnustofunni í smærri kantinum, og með fáum þátttakendum, því í fyrsta lagi höfum við ekki aðstöðuna til að hýsa hundrað manns, en líka viljum við hafa hópinn lítinn svo það séu auðveldari samskipti þátttakenda hvers við annan og við leiðbeinendurna."

Kom upphaflega í mánaðardvöl

Allt að 12 verkefni með um tveim meðlimum hvert verða valin til þátttöku en bakhjarlar vinnustofunnar eru 66°Norður, Arctic Fish, Kerecis, KPMG auk styrkja frá Vestfjarðastofu og byggðaþróunarverkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar, sem er verkefni Brothættra byggða á vegum Byggðastofnunar. Leiðbeinendur í verkefninu eru þau Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, Helgi Rúnar Óskarsson forstjóri 66°Norður, G. Fertram Sigurjónsson forstjóri og stofnandi Kerecis, Stefán Þór Helgason sem situr í ráðgjafateymi KPMG og Þórarinn Bjartur Breiðfjörð Gunnarsson forstöðumaður Fab Lab á Ísafirði.

„Fyrstu tvö árin höfum við verið með marga alþjóðlega þátttakendur, enda er þessi hluti Íslands sérstaklega mikið aðdráttarafl fyrir útlendinga. Það er mikið ævintýri að koma á jafnafskekktan stað sem jafnerfitt er að komast til, sérstaklega yfir veturinn, og vinna í friði og ró. Ég kom hingað sjálfur til að vinna að mínu eigin verkefni fyrir ári síðan og var hér í einn mánuð en tók við Blábankanum nú í byrjun sumars. Í ár munum við einblína aðallega á íslensk verkefni þó við munum taka allar umsóknir til greina. Við munum bara sjá til í september þegar umsóknarfresturinn verður liðinn hvernig aðstæður eru fyrir millilandaferðalög."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.