*

laugardagur, 19. október 2019
Sjónvarp 2. júní 2014 14:31

Viðskiptahraðall fyrir orkufyrirtæki

Startup Energy Reykjavík er viðskiptahraðall sem gerir sjö sprotafyrirtækjum í orkugeiranum kleift að þróa hugmyndir sínar áfram.

Kári Finnsson
Hleð spilara...

Fjárfestadagur Startup Energy Reykjavík var haldinn í höfuðstöðvum Arion banka í síðustu viku e þar kynntu sjö teymi viðskiptahugmyndir sínar fyrir fjárfestum. Startup Energy Reykjavík er svokallaður viðskiptahraðall (e. Business accelerator) þar sem sjö sprotafyrirtæki fá að þróa hugmyndir sínar áfram. Fyrirtækin sjö eru öll í orkutengdum iðnaði en þau vinna m.a. með vindorku, jarðvarma, fallvötn, álframleiðslu, varma sjávar o.fl.

Bakhjarlar teymanna eru Landsvirkjun, Arion banki, Nýsköpunarmiðstöð og GEORG en framkvæmd og skipulagning verkefnisins er í höndum Klak Innovit og Iceland Geothermal. Stefán Þór Helgason, verkefnastjóri Klak Innovit, segir að fyrirtækin hafi öll færi á að geta orðið stór á alþjóðlega vísu.

VB Sjónvarp ræddi við Stefán.

Fyrirtækin sjö sem taka þátt í Startup Energy Reykjavík eru eftirfarandi:

Big Eddy – Hárnákvæmar vindaspár sem ætlað er að auðvelda val á staðsetningu vindmylla til raforkuframleiðslu. Teymi samanstendur af landsþekktum veðurfræðingum, stærðfræðingum o.fl.

BMJ Energy – Gerir bændum og öðrum landeigendum kleift að virkja örsmáa læki og lækjarsprænur. BMJ Energy nýtir sérstakan stýribúnað við að stjórna vatnsflæði virkjunarinnar Stofnandi fyrirtækisins er bóndasonur austan úr Suðursveit en hann hefur áralanga reynslu af rafeindabúnaði og er m.a. einn þeirra sem hannað hefur hugbúnað sprotafyrirtækisins ReMake Electric.

Gerosion mun veita ráðgjöf, efnisprófanir og sérhæfða rannsóknar- og þróunaraðstoð fyrir aðila í jarðhita- og olíuiðnaðinum. Lausnir teymisins geta lengt endingartíma borhola og auðveldað boranir á meira dýpi en áður hefur tíðkast. Teymið samanstendur af þremur hámenntuðum konum sem hafa undanfarin misseri m.a. unnið sjálfstætt og sem ráðgjafar á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

DTE býður rauntímagreiningu á kerskálum álvera. Í dag eru sýni tekin úr kerskálum handvirkt og þau bæði mæld og greind en ferlið tekur um 24 tíma. Þá eru upplýsingarnar orðnar nokkuð úreltar og minna gagn af þeim en ætla mætti. DTE þróar og hannar búnað sem mun geta mælt stöðu kerskála í rauntíma og þannig stytta ferlið til muna, spara gífurlegar fjárhæðir og gefa raunsannari upplýsingar en áður hefur verið mögulegt.

GeoDrone veitir þjónustu til jarðvarma iðnaðarins meðal annars með notkun flygilda (e. drone). Teymið samanstendur af pólskum aðilum en hluti teymisins hefur búið hér á landi nokkur undanfarin ár.

Sodium Chorate Plant mun framleiða natríum klórats í smáum skala til útflutnings með vetni aukaafurð. Einn aðili er að baki Sodium Chorate en hann hefur auk þess fengið liðsauka m.a. frá Finnlandi og Kanada.

Landsvarmi er félag sem fjármagnar, setur upp og rekur varmadælur til upphitunar á húsnæði.  Einn aðili er að baki Landsvarma en hann nýtur stuðnings m.a. frá Noregi og víðar.