*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 3. mars 2017 09:49

Viðskiptajöfnuður hagstæður um 44,7 milljarða

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 44,7 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2016 samanborið við 100,7 milljarða króna fjórðunginn á undan.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 44,7 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2016 samanborið við 100,7 milljarða króna fjórðunginn á undan. Þetta kemur fram í frétt Seðlabanka Íslands um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi.

Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um 13,3 milljarða króna en þjónustujöfnuður mældist hagstæður um 43,4 milljarða króna. Jöfnuður frumþáttatekna var hagstæður um 19,3 milljarða króna en rekstrarframlög óhagstæð um 4,8 milljarða króna.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 3.837 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.811 milljarðar króna. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 26 milljarða króna eða því sem nam 1,1% af vergri landsframleiðslu og batnaði um 36 milljarða eða því sem nam 1,5% af VLF á milli ársfjórðunga.

Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 113 milljarða króna. Skuldir lækkuðu um 113 milljarða króna. Gengis- og verðbreytingar höfðu neikvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins um 79 milljarða króna á ársfjórðungnum. Gengi krónunnar hækkaði gagnvart helstu gjaldmiðlum, um 5,8% miðað við gengisskráningarvog.