Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 48 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanborið við 5,6 milljarða hagstæðan jöfnuð á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum. Þá var vöruskiptajöfnuðu óhagstæður sem nemur 9,9 milljörðum króna en þjónustujöfnuður hagstæður um 80,2 milljarða.

Þá segir í tilkynningunni að halli á þáttatekjum hafi verið að miklu leyti vegna innlánsstofnana í slitameðferð. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 14,6 ma.kr. og tekjur um 5,2 ma.kr. Neikvæð áhrif innlánsstofnana í slitameðferð á þáttatekjujöfnuð nema 9,4 ma.kr. Halli á þáttatekjum án áhrifa þeirra er því um 8,4 ma.kr.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 5.673 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.293 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 7.620 ma.kr. og hækka nettóskuldir um 154 ma.kr. á milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 3.713 ma.kr. og skuldir 3.823 ma.kr. Hrein staða var því neikvæð um 110 ma.kr. og lækkuðu nettóskuldir um tæpa 82 ma.kr. á ársfjórðungnum.

Undirliggjandi erlend staða neikvæð um 885 ma.kr.

Í annarri tilkynningu frá Seðlabankanum er greint frá því að undirliggjandi erlend staða í lok þriðja ársfjórðungs 2014 er metin neikvæð um 885 ma.kr. eða 46% af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar var undirliggjandi staðan í lok annars ársfjórðungs talin neikvæð um 916 ma.kr. Hefur undirliggjandi staðan því batnað um 31 ma.kr. eða um 1,5% af vergri landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi.