Afgangur á undirliggjandi viðskiptajöfnuði nægir ekki til að standa undir þekktum afborgunum af erlendum lánum, að því er segir í sérriti Seðlabankans. Þar segir að undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins sé neikvæð um 60% af vergri landsframleiðslu að mati Seðlabankans. Hér er um að ræða hreina erlenda stöðu án innlánsstofnana í slitameðferð og án Actavis en með reiknaðri niðurstöðu úr uppgjörum innlánsstofnana í slitameðferð og nokkurra annarra stórra félaga í slitameðferð, í lok árs 2012.

Nokkur óvissa er um þessa stærð en talið líklegt að hún verði á bilinu -80% til -35%. Miðað við fyrirliggjandi þjóðhagsspá mun hrein erlend staða í hlutfalli af landsframleiðslu batna um 18 prósentur fram til loka árs 2017 eða um rúmar 3 prósentur á ári. Þrátt fyrir nokkurn afgang á undirliggjandi viðskiptajöfnuði, einkum framan af spátímanum, nægir hann ekki til að standa undir þekktum afborgunum af erlendum lánum. Endurfjármögnun hluta þeirra er því forsenda stöðugs gengis.