Leita verður aftur til ársins 1964 til að finna jafn óhagstæð viðskiptakjör, að mati greiningardeildar Arion banka. Deildin gerir vaxtaákvörðun og Peningamál Seðlabankans að aðalefni Markaðspunkta í dag í skugga þess að Seðlabankinn spái því að viðskiptakjör muni áfram versna úr því að vera um 7% lakari en langtímameðtal í að vera um 11% lakari árið 2016.

Slök viðskiptakjör munu svo hafa áhrif á krónuna, að mati greiningardeildar Arion banka.

Í Markaðspunktum segir:

„Í Peningamálum segir að viðskiptakjörin séu helsta ástæða þess að dregið hefur úr viðskiptaafgangi, en þau grafa einnig undan gengi krónunnar og gera úrlausn greiðslujöfnuðarvanda erfiðari. Áfram er búist við lakari viðskiptakjörum, svo við óttumst að þau muni ekki veita krónunni mikinn stuðning, letja Seðlabankann til að styðja við gengi hennar með inngripum (enda hefur bankinn sagt að hann muni ekki koma í veg fyrir að ytri aðstæður þjóðarbúsins komi fram í verðmyndun krónunnar) og grafa þar með undan þeirri kjölfestu sem inngripin gætu annars veitt verðbólguvæntingum. Við minnum þó á að það er alræmt hve erfitt er að spá fyrir um verðþróun hrávara, svo óvissubil viðskiptakjaraspárinnar er sennilegast ógnarstórt.“