Þótt olíuverð hafi farið lækkandi á undanförnum vikum spáir Seðlabankinn því að olíuverð hækki meira en gert hafði verið ráð fyrir í Peningamálum 2/2011. Þetta kom fram í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings bankans, á fundi með blaðamönnum nú fyrir skömmu. Hann segir að fyrir vikið muni viðskiptakjör Íslands veikjast um 2% í stað þess að styrkjast um hálft prósent.

Hann segir kröftugan vöxt einkaneyslu á 2. ársfjórðungi hafa komið á óvart og vitnar m.a. til aukinnar kortaveltu. Nú sé gert ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu á fjórðungnum hafi verið 6,8% og að vöxtur einkaneyslu á árinu verði 3,8% í stað 2,7% eins og gert var ráð fyrir.

Könnun bankans um á meðal 114 fyrirtækja gefi vísbendingar um að atvinnuvegafjárfesting, að frátaldri stóriðju og skipa- og flugvélafjárfestingu, verði 6% á árinu en í hagspá bankans sem kynnt var í apríl var gert ráð fyrir 3% samdrætti. Heildarfjárfesting verði þó veikari en gert var ráð fyrir í apríl, aðallega vegna veikari fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Þegar allt er dregið saman spáir bankinn 2,8% hagvexti á árinu í stað 2,3% eins og spáð var í apríl.