Danski háskólaprófessorinn Jan Damsgaard hjá Copenhagen Business School flutti áhugavert erindi á ráðstefnu Reiknistofu Bankanna um tækni í fjármálum í síðustu viku. Erindi Damsgaard, sem er yfir upplýsingatæknideild CBS, nefndist The Digitalization of the Finance Sector: Back to the Future . Damsgaard segir tækni framtíðar í raun gera fólki kleift að fara aftur til fortíðar.

„Fjármálageirinn er næsti geirinn til að finna fyrir mikilli tæknivæðingu og röskun. Jafnvel þótt fjármálageirinn hafi notast við upplýsingatækni undanfarin 50 ár eða svo, þá hefur tæknin fyrst og fremst verið notuð til að lækka kostnað og auka skilvirkni. Tæknivæðingin núna mun hins vegar kalla á miklar breytingar í fjármálageiranum sem þegar hafa átt sér stað annars staðar. Viðskiptalíkanið mun taka stakkaskiptum og menn þurfa að finna nýjar leiðir til að afla tekna og ná til viðskiptavina,“ segir Damsgaard í samtali við Viðskiptablaðið. Ástæðan fyrir því að fjártækni færir fólk aftur til fortíðar er að tæknin gerir fólki kleift að eiga bein viðskipti við hvert annað án milliliða, líkt og tíðkaðist oft á árum áður.

„Margar þær stofnanir sem hafa orðið til undanfarin 100 ár munu hverfa, í stað þess að stýra markaðnum verða til aðilar sem auð­velda viðskipti á markaðnum. Sem dæmi, þá fæ ég ekki mjög háa vexti ef ég legg peninga inn á bankabók í Danmörku en ég þarf að borga háa vexti ef ég ætla að taka bílalán. Nú er boðið upp á þjónustu þar sem einstaklingar sem vilja lána peninga og einstaklingar sem vilja fá lánað eru tengdir saman (e. peer-to-peer lending). Þetta er ekki gert í gegnum banka, heldur forrit sem einfaldar þessu fólki að finna hvert annað á markaði. Annað dæmi er á tryggingamarkaði, þar sem fólk sem þekkir hvert annað og treystir hvert öðru getur keypt sér sameiginlega tryggingu og deilt kostnaði. Við erum að fara aftur í gamla farið, þess vegna kalla ég erindi mitt „aftur til framtíðar“.“

Risarnir mega ekki sofna

Ljóst er að aukin tækni í fjármálum getur verið ógn við stórar og fornar bankastofnanir. Damsgaard segir ljóst að bönkunum stafi mikil ógn af fjártæknifyrirtækjum nema þeir ákveði að nýta sér sjálfir tæknina, með samstarfi eða yfirtökum.

„Ef stóru bankarnir skilja hvernig þeir geta nýtt sér þessi fjártæknifyrirtæki, þá eru þeir með aflið og fjármagnið til að vinna með þessum fyrirtækjum og nýta tæknina,“ segir Damsgaard. Hann viðurkennir að áhugavert verði að fylgjast með því hverjir verða stórir í fjártæknigeiranum. Sjálfsagt geti stór tæknifyrirtæki á borð við Google, Facebook, Apple og Amazon rutt sér til rúms í fjármálageiranum og sjálfsagt muni einhver nú óþekkt sprotafyrirtæki rísa upp. Hlutverk sjálfra bankanna gæti gerbreyst.

„Ég held að margir bankarnir, vegna reglugerðar, muni í raun bara verða að eins konar innviðum og fjöldinn allur af fjártækni fyrirtækjum mun byggja á þessum innviðum. Þessir bankar eru núna að hagnast gríðarlega og nota tölvutæknina til að skera niður kostnað án þess að skila ábatanum til neytenda. Það þýðir ekki að röskunin sé ekki á leið­inni, hún mun koma, þannig að í stað þess að greiða arð til hluthafa ættu bankarnir að hugsa hvernig þeir geta nýtt peninginn til að umbreyta fyrirtæki sínu úr hefð­ bundnum banka í tæknivæddan banka.“

Viðtalið við Damsgaard og umfjöllun um ráðstefnu Reiknistofu Bankanna má nálgast í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið á rafrænu formi með því að smella á Tölublöð á forsíðu.