Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki eða svokallaðan bankaskatt. Þetta kemur fram á heimasíðu ráðsins .

„Viðskiptaráð hefur oft á síðustu misserum vakið athygli á því að bankaskatturinn sé alltof hár, mun hærri en á Norðurlöndunum og beri að lækka allverulega eða afnema. Því er fagnaðarefni að nú skuli lækka skatthlutfall bankaskattsins í skrefum úr 0,376% af skuldum í 0,145% samkvæmt frumvarpinu," segir í umsögninni.

Viðskiptaráð telur jafnframt að ganga ætti lengra og lækka skattinn meira svo hann sé í takt við skattlagningu fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum.

Í umsögninni eru raktar fjórar ástæður fyrir því að lækka skuli bankaskattinn:

  1. Bankaskattur hækkar útlánavexti og rýrir ávöxtun sparnaðar heimila
  2. Bankaskattur dregur úr samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar og hagkerfis
  3. Bankaskattur dregur úr samkeppni sem neytendur borga á endanum
  4. Bankaskattur rýrir ríkiseignir um tugi milljarða króna

Í gær var endurskoðuð fjármálastefna birt og greint var frá því að lækkun bankaskatts verði frestað um eitt ár.