Þær meginlausnir sem Samkeppniseftirlitið leggur til í frummatsskýrslu sinni um eldsneytismarkaðinn eru miðstýring markaða í gegnum ákvarðanir og íhlutanir eftirlitsins, að því er segir í athugsaemdum Viðskiptaráðs við skýrslunni.

Í athugasemdunum segir að markaðsrannsóknir sem framkvæmdar eru í þeim tilgangi að réttlæta íhlutanir eftirlitsaðila án þess að brot á samkeppnislögum hafi átt sér stað séu afar óæskilegar. „Því miður falla rannsóknir Samkeppniseftirlitsins í þennan flokk, ólíkt því sem tíðkast t.a.m. á Norðurlöndunum. Þá telur Viðskiptaráð afmörkun og framsetning rannsóknarinnar um margt ábótavant.“

Þá segir í athugasemdunum að mikilvægt sé að hlutlægni sé gætt við framsetningu gagna og útreikninga þeirra. Þetta skipti máli fyrir orðspor og trúverðugleika viðkomandi stofnunar enda í mörgum tilfellum um viðkvæm málefni að ræða þar sem miklir hagsmunir séu undir.

Viðskiptaráð nefnir fjögur dæmi um galla á frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins.

„Við útreikninga á umframálagningu notar Samkeppniseftirlitið breska smásala til viðmiðunar. Bretland er með um 200 sinnum fleiri íbúa, annars konar samgönguinnviði, ólíka íbúadreifingu, lægra vaxtastig og annað veðurfar. Eðlilegra hefði verið að velja land sem svipar meira til Íslands.

Samkeppniseftirlitið telur óeðlilegt að sama verð sé í gildi á eldsneytisstöðvum um allt land. Óhætt er að segja að mikil verðmismunun á milli landsvæða myndi sæta verulegri gagnrýni innan samfélagsins. Þá á slík verðstefna sér samsvörun á fjölda smásölumörkuðum með ýmsar aðrar vörur.

Samkvæmt útreikningum eftirlitsins hefur engin umframarðsemi verið til staðar á eldsneytismarkaði á umræddu tímabili. Þrátt fyrir það dregur eftirlitið ályktanir þess efnis að óeðlileg eignatengsl sé til staðar á milli tveggja fyrirtækja innan markaðarins sem skaði samkeppnisumhverfið. Forsendur, framsetning og ályktanir þess kafla eru ámælisverðar að mati Viðskiptaráðs.

Mat á áhrifum ýmissa þeirra tillagna sem Samkeppniseftirlitið leggur fram í rannsókn sinni er afar yfirborðskennt. Þá eiga margar tillagnanna sér ekki hliðstæðu í vestrænum hagkerfum. Til að skipulagsbreytingar skili neytendum ávinningi er nauðsynlegt að þær leiði til aukinnar hagkvæmni. Upplýsingar um slíkt verða ekki fengnar án ítarlegri greininga.“