Viðskiptaráð hefur gert athugasemdir við aðferðafræði og niðurstöður verðlagseftirlits ASÍ við mat á verðlækkunum vegna afnáms vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts. Í úttekt ASÍ segir að sjónvörp, útvörp og myndspilarar sem áður báru 25% vörugjald ættu að lækka í verði um 22,2% en verðlagseftirlit þeirra fullyrðir að slík verðlækkun hafi ekki átt sér stað.

Viðskiptaráð gerir tvær athugasemdir við útreikninga ASÍ en í frétt á vef Viðskiptaráðs er gefið í skyn að tímasetning og forsendur mælinga ASÍ séu villandi.

Þar segir að í fyrsta lagi sé notast við viðmiðunarverð frá því í október 2014 til að meta þá lækkun sem hefur átt sér stað. Í september 2014, mánuði áður en könnunin var gerð, höfðu margir söluaðilar hins vegar þegar lækkað verð sem nam afnámi vörugjalda. Þau fyrirtæki sem lækkuðu verð fyrst allra koma því verst út í niðurstöðum verðlagseftirlitsins.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að engir aðrir þættir en álagning verslana hafi ráðið breytingum á vöruverði frá hausti 2014 fram í apríl 2015. Því fer hins vegar fjarri. Annars vegar styrktist bandaríkjadalur gagnvart krónu um 13% frá september 2014 til apríl 2015, sem gerir mörg raf- og heimilistæki kostnaðarsamari í innkaupum. Hins vegar hefur almenn verðlagshækkun á sama tímabili numið 1,0%, svo að óbreyttu hefði verð á vörum sem báru vörugjöld átt að hækka um 1% af þeim sökum.

Fyrr í dag gáfu Ormsson og Samsungsetrið frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýna einnig mælingar ASÍ.