Viðskiptaráð leggst gegn lagafrumvarpi um nýja búvörusamninga í áliti sínu til atvinnuvegar Alþingis. Segja þeir að vanda þurfi betur til verka við undirbúning samninganna og ná fram breiðari sátt um þá í ljósi þess að þeir eigi að gilda til tíu ára og bindi hendur skattgreiðenda.

Sérhagsmunir umfram heildarhagsmuni

Í álitinu segir Viðskiptaráð að búvörusamningarnir valdi skattgreiðendum bæði kostnaði og skerði lífskjör með tollvernd og telja þeir að margt bendi til að sérhagsmunir hafi notið forgangs umfram heildarhagsmuni við gerð samninganna.

Benda þeir á að litið hafi verið framhjá umbótatillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld að mestu leiti, en þar er lagt til að landbúnaðarstuðningur yrði á formi jarðræktarstuðnings. Á móti yrði dregið úr stuðningi við einstakar greinar landbúnaðarins sem og úr tollvernd til að auka samkeppnisaðhald í greininni.

Hvetja Alþingi til að hafna lögunum

Gagnrýnir Viðskiptaráð jafnframt að ekki sé gert ráð fyrir árangursviðmiðum sem landbúnaðargreinar þurfi að uppfylla til að njóta áfram stuðnings þegar kemur að endurskoðun samninganna. Kveðið er um að slík endurskoðun fari fram tvisvar á tímabilinu, það er árin 2019 og 2023, en þar er þvert á móti ákvæði um að stuðningur skuli aukinn ef framleiðsla nái ekki ákveðnum markmiðum.

Af þessum sökum leggur Viðskiptaráð að viðræður um búvörusamninga verði hafnar upp á nýtt en áður en þær hefjist ætti að leita samráðs við fulltrúa heildarsamtaka í atvinnulífinu, launþegahreyfinga og neytenda. Þannig verði betur tryggt að samningsmarkmið ríkisvaldsins endurspegli almannahagsmuni en nú er og því hvetja þeir til að Alþingi hafni lögunum.