Viðskiptaráð Íslands fagnar 100 ára afmæli í dag. „Það er heiður að fá að vera í forsvari fyrir Viðskiptaráð Íslands á þessum tímamótum,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

„Að samtök eins og Viðskiptaráð Íslands lifi í eina öld ber að sjálfsögðu að fagna en tilgangur ráðsins allt frá stofnun þess hefur ætíð verið sá sami; að stuðla að umbótum í íslensku viðskiptalífi til aukinnar hagsældar fyrir landsmenn.  Þessi staðfesta ráðsins hefur viðhaldið því að fyrirtæki landsins sjá ávinning í því að vera hluti af ráðinu.

Á tímamótum sem þessum er vert að staldra við og horfa yfir farinn veg. Höft á verslun og viðskipti, heimsstyrjaldir og kreppur hafa sett mark sitt á sögu íslensks efnahagslífs. Stórhuga og kraftmikið athafnafólk ásamt framsýnu stjórnmálafólki, og dugnaði og vinnusemi Íslendinga, hefur þó stuðlað að sjálfstæði og sjálfbærni íslensks atvinnulífs.

Nú stöndum við enn á ný frammi fyrir byltingu – 4. iðnbyltingunni svokölluðu - sem mun kollvarpa kerfum og því hvernig hlutirnir hafa verið gerðir. Það eru því spennandi tímar framundan í íslensku samfélagi og viðskiptalífi. Þar skiptir máli að vinna saman sem heild og skilja sundurlyndið eftir í fortíðinni.“