Með nýju frumvarpi til laga um húsnæðisbætur er lagt til að stuðningur stjórnvalda til leigjendur íbúðarhúsnæðis verði aukinn þannig að hann verði jafnari stuðningi stjórnvalda við eigendur fasteigna gegnum vaxtabótakerfið. Áætluð útgjaldaaukning ríkissjóðs  vegna breytinganna mun nema um 2 milljörðum króna árlega.

Viðskiptaráð skilaði umsögn um frumvarpið, en niðurstaða ráðsins er sú að ráðlegt sé að frumvarpið nái ekki fram að ganga. Þessari niðurstöðu sér til stuðnings nefnir Viðskiptaráð meðal annars að litið hafi verið framhjá ráðleggingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem gerði úttekt á tekjuskatts- og bótakerfum Íslendinga.

Ætti að leggja niður núverandi húsnæðisbótakerfi

Í niðurstöðu AGS segir að ríkið ætti fremur að hjálpa efnaminni einstaklingum með beinum fjárhagsstuðningi í stað niðurgreiðslna sem tengdar eru húsnæðiskosti hvers og eins. Þá gagnrýnir skýrsla AGS einnig hið þrískipta stuðningskerfi sem ríkið stendur fyrir - húsaleigubætur, vaxtabætur og húsnæðislán gegnum íbúðalánasjóð.

Þá leggur AGS fremur til að útgjaldatengdar húsnæðisbætur verði alfarið afnumdar og í stað þeirra verði komið upp almennum fjárhagsstuðningi sem öll efnaminni heimili hljóta óháð húsakynnum sínum.

Mun leiða til hærra leiguverðs

Auk þess nefnir VÍ að umsýslukostnaður aukist við frumvarpið, og að stuðningur ríkisins verði í raun og veru að meirihluta til leigusala fremur en til leigjenda.

Að mati Viðskiptaráðs mun frumvarpið fljótlega leiða til hærra leiguverðs, sem skilar leigusölum meiri ábata en leigjendum.