Viðskiptaráð segir að nú hafi myndast hér á landi hætta á ofrisi og síðan í kjölfarið falli íslensku krónunnar, auk hættu á stöðnun vegna veikari samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja.

Mælir Viðskiptaráð með að stjórnvöld grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir ofris gjaldmiðilsins, tryggja sjálfbærar launahækkanir og bæta samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja.

Aðgerðir gegn ofrisi

Til að koma í veg fyrir ofris gjaldmiðilsins hvetur ráðið til að sett verði lágmark á erlendar eignir lífeyrissjóða, í stað þess 50% þaks sem nú er. Vísa þeir í nýlega úttekt sem lagði til 40-50% lágmark.

Einnig að höft á útflæði fjármagns verði afnumin og að peningastefnan verði endurskoðuð.

Tryggja sjálfbærar launahækkanir

Til að tryggja sjálfbærar launahækkanir þurfi stjórnvöld að tryggja að SALEK samkomulagið haldi og með því að sýna viðnám við umframlaunahækkanir opinberra starfsmanna.

Einnig með lækkun tryggingagjalds og með því að bregðast við ákvörðunum kjararáðs með lækkun á starfstengdum greiðslum til æðstu embættismanna líkt og gert var hjá þingmönnum.

Samkeppnisstaða bætt

Til að tryggja samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja þurfi afnema þak á kostnaðarendurgreiðslum vegna rannsókna og þróunarstarfs. Önnur lausn sé að veita rétt til frádráttar frá tekjuskatti vegna þróunarkostnaðar yfir hámarkinu.

Einnig þurfi að lækka fjármagnstekjuskatt, sérstaklega vegna hárrar verðbólgu, og því ætti að leggja hann á raunávöxtun í stað nafnávöxtunar, eða lækka hann ef það þykir of flókið.

Loks ætti að einfalda regluverk og vísar ráðið þar í að reglur ESB hafi verið innleiddar óþarflega íþyngjandi í gegnum EES samninginn og að ráðuneytin hafi ekki framfylgt því hlutverki sínu að meta áhrif íþyngjandi ákvæða á atvinnulífið.