Viðskiptaráð Íslands hefur skilað umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og tekjuskatt og brottfall laga um vörugjöld.

Í umsögninni kemur meðal annars fram að breytingar á neyslusköttum auki kaupmátt heimila um 0,4% að meðaltali og kaupmáttaraukningin sé mest fyrir tekjulægsta fjórðunginn, eða um 0,5%. Einnig auki breytingar á barnabótum ráðstöfunartekjur heimila um 0,1% að meðaltali og aukningin þar sé einnig mest fyrir tekjulægsta fjórðung heimila, eða um 0,6%.

Þá segir einnig að lágmarka megi óhagræði vegna breytinganna með því að flýta líttillega gildistöku niðurfellingar vörugjalda og seinka lítillega gildistöku breytinga á virðisaukaskatti. Kæmi það í veg fyrir að verslanir sætu uppi með birgðir vegna boðaðra verðlækkana í kjölfar brottfalls vörugjalda eða þurfi að breyta virðisaukaskatti um áramót þegar mikið álag sé á verslunum og vörum skilað eða skipt.

Heilt yfir telur Viðskiptaráð fyrirliggjandi frumvarp vera þýðingarmikið skref í rétta átt í skattamálum og breytingarnar séu til þess fallnar að auka skilvirkni neysluskatta og styrkja grundvöll verðmætasköpunar hér á landi. Þá hafi stjórnvöld útfært breytingarnar svo þær komi best út fyrir tekjulægstu heimilin í landinu.