Viðskiptaráð Íslands segir í tilkynningu að fullyrðingar VR og ASÍ um áhrif fjárlagafrumvarpsins á lágtekjuhópa séu rangar.

Stjórn VR sendi frá sér ályktun í fyrradag þar sem fullyrt var að boðaðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu legðust með nærri tvöfalt meiri þunga á lægsta tekjuhópinn en þann hæsta. Þá sagði forseti ASÍ að breytingarnar kæmu einkum illa við tekjulág heimili og barnafólk. Viðskiptaráð telur þessar fullyrðingar rangar og þegar áhrif fjárlagafrumvarpsins á heimilin séu skoðuð í heild komi önnur mynd í ljós.

Fram kemur í tilkynningu Viðskiptaráðs að stjórn VR hafi fullyrt að hækkun lægra þreps virðisaukaskatts kæmi verst niður á tekjulægstu heimilunum þar sem tekjulægsti hópurinn eyði hærra hlutfalli tekna sinna í matvæli, en það sem ekki hafi komið fram sé að tekjulægstu heimilin eyði hærra hlutfalli ráðstöfunartekna í langflestar neysluvörur. Þar á meðal séu sjónvörp og raftæki sem muni lækka verulega í verði við boðaðar breytingar á skattkerfinu.

Sé heildarmyndin skoðuð, í stað þess að taka út ákveðna flokka neysluvara, megi sjá að heildaráhrif boðaðra breytinga á neyslusköttum séu þau að auka kaupmátt heimilanna. Þótt matur og drykkjarvara hækki vissulega í verði sé það svo að flestir aðrir neysluflokkar lækki og sumir hverjir verulega.

Segir Viðskiptaráð að þar sem tekjulægstu heimilin verji hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna í neyslu en önnur komi þessar breytingar sér best fyrir þau.

Nánar má lesa um málið hér .