Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn vegna frumvarps um frjálsa smásölu áfengis. Viðskiptaráð styður frumvarpið og leggur til að það verði samþykkt.

Í umsögninni tekur Viðskiptaráð undir það sjónarmið að hið opinbera eigi ekki að standa í verslunarrekstri enda hafi ráðið ávallt talað fyrir því að hið opinbera láti af rekstri sem einkaaðilar geti sinnt með hagkvæmari hætti. Segir einnig að frjáls smásala áfengis auki atvinnufrelsi og þar með lífskjör hér á landi.

Aukið frelsi bætir lífskjör

Bendir Viðskiptaráð þannig á að einkaaðilar þurfi að haga rekstri sínum með sem hagkvæmustum hætti til að verða ekki undir í samkeppnisumhverfi. Reynslan af íslenskum smásölumarkaði sýni þetta svart á hvítu, en aukið frelsi í verslunarrekstri hafi stuðlað að verulegum kjarabótum fyrir neytendur hér á landi á undanförnum áratugum.

Viðskiptaráð segir afleiðinguna af því að ÁTVR hafi í dag einkaleyfi á smásölu með áfengi vera að kraftar samkeppni leiði ekki til aukinnar hagkvæmni í rekstri líkt og raunin hafi verið í verslun með aðrar vörutegundir. Af þeim sökum megi telja að afnám einkaleyfis ÁTVR á sölu áfengis muni leiða til bættrar þjónustu og lægra vöruverðs fyrir neytendur.

Forvarnir ákjósanlegri en frelsisskerðing

Í umsögninni segir einnig að af öðrum umsögnum um lagafrumvarpið og umræðu í þjóðfélaginu megi ráða að helstu rökin fyrir einokun ríkisvaldsins á smásölu með áfengi byggi á sjónarmiðum um lýðheilsu. Viðskiptaráð er hins vegar ósammála þessu og telur að árangursríkasta leiðin til að draga úr misnotkun á áfengi sé í gegnum forvarnarstarf, en ekki takmarkanir á frelsi einstaklinga til neyslu þess.

Þessu til stuðnings er bent á að áfengisneysla ungmenna hafi dregist verulega saman á undanförnum árum þrátt fyrir að aðgengi að áfengi hafi á sama tíma aukist vegna lengingar opnunartíma og fjölgunar verslana ÁTVR. Þetta sé til marks um góðan árangur af forvarnarstarfi í skólum.

Þá kemur að lokum fram í umsögninni að afnám einkaleyfis ÁTVR á smásölu áfengis muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Tekur Viðskiptaráð undir markmið lagafrumvarpsins og telur breytingarnar sem það kveður á um vera til bóta.