Viðskiptaráð Íslands fagnar því að meirihluti þings styðji fyrirliggjandi frumvarp um Icesave. Ráðið telur samþykkt ábyrga niðurstöðu og hvetur ríkisstjórn og stjórnarandstöðu eindregið til að leysa „það vonda mál sem Icesave er, hratt og örugglega. Um leið verður að tryggja að einkafyrirtæki geti aldrei aftur skuldbundið skattgreiðendur með þeim hætti sem átti sér stað með Icesave innlánsreikningunum.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birt er á síðu Viðskiptarás og framkvæmdastjórn skrifar undir. Segir að áframhaldandi óvissa um lyktir Icesave-deilunnar sé endurreisn hagkerfisins ekki til framdráttar og með málið í baksýnisspeglinum gefist stjórnvöldum færi á að veita öðrum og uppbyggilegri viðfangsefnum athygli. „Af nógu er að taka.“

Yfirlýsingu Viðskiptaráðs Íslands má lesa í heild sinni hér að neðan:

Vegna ríkisábyrgðar á Icesave skuldbindingum

Allt frá bankahruni hefur mikil umræða átt sérstað um ríkisábyrgð á skuldbindingum vegna Icesave innlánsreikninganna Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Tvívegis hafa lög verið samþykkt frá Alþingi en þrátt fyrir það er deilan óleyst. Eins og kynnt hefur verið liggja nú fyrir samningsdrög á milli Tryggingasjóðs innistæðueiganda og íslenska ríkisins við Bretland annars vegar og Holland hins vegar. Umtalsverður árangur hefur náðst miðað við fyrri samninga auk þess sem betri endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans dragi úr mögulegum skuldbindingum ríkissjóðs vegna Icesave. Afar ólíklegt er talið að lengra verði farið í samningaviðræðum auk þess sem ólíklegt er að Bretar og Hollendingar vilji setjast að samningaborðinu með Íslendingum í fjórða sinn.

Hvort sem menn telja ríkissjóð bera lagalega ábyrgð á skuldbindingum tengdum Icesave reikningum Landsbankans þá draga samningar úr óvissu í efnahagslífinu sem stuðlar að skjótari bata hagkerfisins. Með því er ekki verið að taka afstöðu hvort ríkissjóði beri skylda til þess að veita ríkisábyrgð á skuld Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Heldur er horft til þess að kostnaðar sem fylgir núverandi samningum annars vegar og hins vegar þeirri óvissu og mögulega kostnaði sem gæti fallið á íslenska ríkið fari málið fyrir dómsstóla. Úrlausn þessa deilumáls er mikils virði fyrir uppbyggingu atvinnulífs hér á landi á komandi árum.

Nú liggur fyrir að meirihluti er á þingi til að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp um Icesave. Sú niðurstaða væri að mati Viðskiptaráð Íslands ábyrg og hvetur ráðið ríkisstjórn og stjórnarandstöðu eindregið til að leysa það vonda mál sem Icesave er, hratt og örugglega. Um leið verður að tryggja að einkafyrirtæki geti aldrei aftur skuldbundið skattgreiðendur með þeim hætti sem átti sér stað með Icesave innlánsreikningunum.
Áframhaldandi óvissa um lyktir Icesave deilunnar er endurreisn hagkerfisins ekki til framdráttar og með málið í baksýnisspeglinum gefst stjórnvöldum færi á að veita öðrum og uppbyggilegri viðfangsefnum athygli. Af nógu er að taka.