Viðskiptaráð Íslands leggur til að Fríhöfnin verði lögð niður og einkaaðilum verði alfarið eftirlátið að sjá um verslunarþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. ÁTVR geti þó boðið í leigu verslunarrýmis til að selja áfengi og tóbak. Þetta kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs.

Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar rekur íslenskra ríkið í gegnum Isavia ohf. og Fríhöfnina ehf. sex verslanir sem í sumum tilfellum eru í beinni samkeppni við innlenda smásala. Verslanirnar njóta opinberrar meðgjafar í gegnum skatt- og tollleysi og geta því boðið mun lægra verð. Viðskiptaráð segir að í gegnum þennan aðstöðumun hafi fríhafnarverslun ríkisins náð til sín verulegri markaðshlutdeild, allt að þriðjungi í stórum vöruflokkum.

Vöruverðið hækkar innan landamæra

Í skoðun Viðskiptaráðs, sem ber yfirskriftina „Á ríkið að selja ilmvötn og sælgæti?“, kemur fram að hið opinbera verði af skatttekjum með því að leyfa skattfrjálsri verslun að taka hlutdeild af innanlandsmarkaði með fríhafnarverslun. Afleiðing þess verði að neysluskattar og þar með vöruverð innan landamæranna þurfi að hækka til að skatttekjur hins opinbera geti haldist óbreyttar.

Segir Viðskiptaráð jafnframt að mikilvægt sé að virk samkeppni ríki á sem flestum sviðum í þróuðu markaðshagkerfi. Einnig þurfi að vera tryggt að slík samkeppni sé á jafnréttisgrundvelli svo neytendur fái notið ávinnings hennar. Fríhafnarverslun á Íslandi í sinni núverandi mynd sé til þess fallin að grafa undan eðlilegri og virkri samkeppni á smásölumarkaði og rýra kjör neytenda til lengri tíma litið.

Tími kominn til breytinga

Auk þess að leggja til að Fríhöfnin verði lögð niður vill Viðskiptaráð einnig að tekið verði fyrir net- og símaverslun í fríhöfninni. Fríhafnarverslun sé einungis réttlætanleg fyrir tækifærisverslun ferðamanna sem eigi leið um flugstöðina en ekki sem valkostur í beinni samkeppni við innlenda smásala. Þá er einnig lagt til að komuverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði lögð niður þar sem slíkar verslanir heyri til algerrar undantekningar í heiminum þar sem þær keppi með opinberri meðgjöf um sömu neytendur og innlendir smásalar.

Viðskiptaráð telur að þessar breytingar myndu leiða til aukinnar hagkvæmni í verslunarrekstri hérlendis, draga úr samkeppni ríkisins við einkaaðila á smásölumarkaði og auka veltu í innlendri verslun. Slík áhrif myndu veita stjórnvöldum svigrúm til að draga úr álagningu neysluskatta og smásölum svigrúm til að draga úr álagningu vegna aukinnar veltu. Afleiðingin af þessu yrði lægra verðlag og aukinn kaupmáttur neytenda hérlendis.

Nánar er hægt að lesa um tillögur Viðskiptaráðs hér .