Viðskiptaráð telur ekki mikla innistæðu fyrir því að hagkerfið ráði við mikið sterkari krónu en áður. Raungengi krónunnar nálgast nú óðfluga sömu slóðir og fyrir faraldur. Þetta kemur fram í greiningu Viðskiptaráðs .

Misvísandi teikn eru á lofti um hvort að hagkerfið geti staðið undir sterkari krónu en fyrir faraldurinn. Í greiningu Viðskiptaráðs er sagt að þróun framleiðni, vaxtamunar, viðskiptakjara og erlendar stöðu sýni ekki skýrt fram á að hagkerfið ráði við sterkari krónu. Þá eru viðskiptakjör lakari og búist er við viðskiptahalla í ár. Einnig er óljóst hvort að gjaldeyrisflæði muni leiða til frekari styrkingar.

„Þó að það sé eðlilegt að krónan styrkist samhliða bjartari horfum í hagkerfinu er um leið mikilvægt að það gangi ekki of langt til þess eins að gengi krónunnar taki skell seinna. Þetta skiptir máli fyrir kaupmátt heimila, verðstöðugleika, fjárfestingar og stöðugleika í efnahagslífinu almennt. Gengisþróun er mjög væntingadrifin og því geta væntingar um sífellda styrkingu leitt til of mikillar styrkingar sem er aðeins til þess fallin að auka kostnaðarsamar sveiflur," segir í greiningunni.

Viðskiptaráð telur að gengið einu og hálfu ári fyrir faraldurinn vera í ágætis takti við getu hagkerfisins sem er í ágætu samræmi við sögulegt meðaltal og mat Seðlabankans á jafnvægisraungengi.

„Lykilatriðið er að þeir sem stunda stór sem smá gjaldeyrisviðskipti, þar meðtalinn Seðlabankinn, myndi sér skoðun á því undir hvaða gengi hagkerfið getur staðið. Sé það ekki gert er meiri hætta á öfgafullum gengishreyfingum, t.d. of mikilli styrkingu sem leiðir til þess að gengið fellur með látum síðar. Hagsmunir okkar allra eru að koma í veg fyrir það."