Ole Sohn, viðskiptaráðherra Danmerkur í ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt, er ríkasti ráðherra landsins, samkvæmt danska dagblaðsins Ekstrabladet. Sohn og aðrir ráðherrar hafa upplýst forsætisráðherrann um fjárhagsstöðu sína.

Ole Sohn
Ole Sohn

Sohn hefur skrifað nokkrar bækur um samtímasögu og stýrir forlagi í eigin nafni ásamt eiginkonu sinni sem þau eiga jafnan hlut í. Verðmæti forlagsins nemur rétt tæpum 1,5 milljónum danskra króna, jafnvirði rétt rúmra 30 milljóna íslenskra króna. Þetta mun vera álíka mikið og Sohn er með í laun á ári sem ráðherra.

Sohn og aðrir samráðherrar hans eru fátæklingar í samanburði við þá ráðherra sem sæti áttu í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen. Þar var efnahags- og viðskiptaráðherrann Brian Mikkelsen manna ríkastur. Auðurinn skrifaðist reyndar á konu hans Eliane Wexøe-Mikkelsen og fjölskyldufyrirtæki hennar. Hlutur þeirra hjóna var metinn á 18 milljónir danskra króna, jafnvirði 385 milljóna íslenskra króna. Nokkrir aðrir ráðherrar áttu í kringum 10 milljónir danskra króna hver.

Eignir forsætisráðherrans Helle Thorning-Schmidt ná 50 þúsund dönskum krónum, samkvæmt upplýsingum blaðsins.

Verðmæti fasteigna ráðherranna eru ekki inni í tölunum, að sögn Ekstrabladet.

Íslenskir þingmenn ágætlega staddir

Aðeins einn ráðherra komst á lista yfir auðugustu ráðherra landsins í samantekt DV á ríkidæmi þingmanna haustið 2010. Ríkasti ráðherrann þá var Álfheiður Ingadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra. Hreinar eignir hennar voru metnar á 180 milljónir króna.

Ríkisstjórnarfundur
Ríkisstjórnarfundur
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Ríkasti þingmaðurinn var á sama tíma flokksbróðir hennar, Atli Gíslason. Hann er nú utan flokka. Eignir Atla í ágúst árið 2010 voru metnar á tæpar 190 milljónir króna.

Þar á eftir komu Sjálfstæðismennirnir Pétur Blöndal með eignir upp á nærri 165 milljónir króna og Bjarni Benediktsson með eignir upp á 140 milljónir króna. DV tók fram að í öllum tilvikum var gert ráð fyrir samsköttun þingmannanna og dæmið reiknað út frá eignum þingmanna umfram skuldir miðað við greiddan auðlegðarskatt þeirra.

Hjónin Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Anna Sigurlaug Pálsdóttir, voru heldur ekki á flæðiskeri stödd. Samkvæmt Samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra greiddi kona Sigmundar rúmar 15 milljónir í auðlegðarskatt og voru eignir hennar umfram skuldir því rúmir 1,3 milljarðar króna.