Jón Ásgeir Jóhannesson, fv. forstjóri Baugs og nú yfirmaður þróunarverkefna hjá 365 miðlum, hefur í nokkur skipti að undanförnu, reynt með ósmekklegum hætti að setja þrýsting á blaðamenn með því að koma umkvörtunum, vegna sannra og löglegra frétta um hann, félög sem hann tengist og dómsmál er hann tengist persónulega, til stjórnar fyrirtækisins og æðstu stjórnenda.

Þetta segir Magnús Halldórsson, viðskiptafréttastjóri Stöðvar 2 og Vísis, í pistli á vef Vísis í kvöld. Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, er sem kunnugt er eigandi 365 sem meðal annars reka Stöð 2, Vísi.is, Fréttablaðið og fleiri miðla.

Magnús, sem áður var blaðamaður hér á Viðskiptablaðinu, rekur í pistli sínum upp þau fjölmörgu mál sem ýmist eru til rannsóknar eða vísað hefur verið til ákæruvaldsins og tengjast með einum eða öðrum hætti Jón Ásgeiri.

„Stundum finnst mér eins og það séu bara tvær lánastofnanir sem ekki eigi kröfu á Jón Ásgeir og félög er honum tengjast; Byggðastofnun og Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN),“ segir Magnús í pistli sínum en tekur þó fram að hugsanlega megi þó finna fleiri lánastofnanir sem ekki eiga kröfu á Jón Ásgeir eða félög hans.

Þá segir Magnús:

„Aðkoma Jóns Ásgeirs að rekstri 365 hefur margsinnis leitt til þess að trúverðugleiki blaðamanna sem vinna hjá fyrirtækinu hefur verið dreginn í efa, og raunar að þeim vegið oft á tíðum í opinberri umræðu. Þetta er skiljanlegt, en oftast nær órökstutt þó. Rótin að þessari umræðu er Jón Ásgeir sjálfur og málefni er honum tengjast.“

Magnús bætir því við að honum finnst það vera „virðingarleysi fyrir því sem öllu skiptir í fjölmiðlavinnu, trúverðugleika ritstjórnanna“ að Jón Ásgeir skyldi vera ráðinn í stjórnunarstöðu innan fyrirtækisins.

„Fjölmiðlar eru ekki eins og margur annar geiri þegar að þessu kemur,“ segir Magnús.

„Það væri auðvelt að gera gagn fyrir fyrirtækið, og starfsmenn þess, með því að taka ákvörðun um að Jón Ásgeir komi ekki nálægt störfum fyrir fyrirtækið á meðan óvissu er eytt fyrir dómstólum um hvort hann sé stórfelldur hvítflibba-glæpamaður eða ekki. Það er ekkert lítið mál.“

Þá lætur Magnús fyrrnefnd orð falla um afskipti og umkvartanir Jóns Ásgeirs af fréttaflutningi miðla 365 og bætir því við að svo virðist sem Jóni Ásgeiri finnist þetta eðlilegt þar sem þetta hafi ítrekað gerst. Þá segir Magnús einnig að Jón Ásgeir hafi verið sérstaklega viðkvæmur fyrir fréttum af málum „þar sem hann mun mögulega, eða hefur þurft, að svara fyrir sakir frammi fyrir dómara,“ segir Magnús.

„Það er kannski betra fyrir Jón Ásgeir og stjórn 365 að vita það, að þessi mál öll er tengjast Jóni Ásgeiri og ekki síst umkvörtunum hans til stjórnar og lögmanna, sem beinast gegn einstaka blaðamönnum, eru rædd hér innanhúss í fullri alvöru og af engri léttúð.“

Sjá pistli Magnúsar í heild sinni.