Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands fór fram í dag en yfirskrift þingsins var „er framtíðin orkulaus eða orkulausnir“.

Í tilefni af þinginu birti ráðið skýrsluna Orkulaus/nir, þar sem fjallað er um stöðuna í orkumálum hérlendis, það sem vel hefur verið gert að undanförnu og þau tækifæri sem blasa við, en einnig hindranir sem íslenskt samfélag og atvinnulíf stendur frammi fyrir.

Í skýrslunni kemur ýmislegt áhugavert fram m.a. að þrátt fyrir að Ísland búi að talsverðu forskoti þegar kemur að framleiðslu og notkun grænnar orku séu miklar áskoranir fólgnar í því að skipta olíu út fyrir endurnýjanlega orku.

„Til þess að geta framleitt næga orku til að hætta allri olíunotkun þurfum við því næstum að tvöfalda raforkuframleiðslu okkar. Nú framleiðum við um 20 teravattstundir af raforku á ári, en þurfum um 16 í viðbót til orkuskiptanna. Þá er ótalin sú orka sem ljóst er að við munum þurfa til að mæta fjölgun þjóðarinnar og vexti hagkerfisins en þar bætast við um 8 teravattstundir að auki. Þörfin er því 24 teravattstundir ríflega tvisvar sinnum núverandi framleiðsla,“ segir í skýrslunni.

Hægagangur í uppbyggingu

„Þegar litið er til þess að elsta virkjun landsins sem enn er í notkun er rúmlega níræð, er ljóst að við þurfum að halda vel á spöðunum. Ef við ætlum okkur að standa við loftslagsmarkmið okkar og svara aukinni raforkuþörf þyrftum við að byggja álíka mikið upp á næstu sautján árum og við höfum gert alla síðustu öld.

Miðað við hraða eða hægagang undirbúnings stórra vatnsafls og jarðvarmavirkjana er þetta mikil áskorun. Ef miðað er við ferlið eins og það er nú tekur undirbúningur áður en leyfisveitingarferlið hefst minnst áratug, ferli leyfisveitinga að undirbúningi loknum getur tekið um fimm ár og þá taka við útboð og byggingaframkvæmdir sem geta tekið önnur fimm ár. Það þýðir að ef við tækjum ákvörðun í dag um að hefja slíkt ferli, við virkjunarkost sem ekki hefur þegar komið til skoðunar, myndi fyrsta megavatt virkjunarinnar líta dagsins ljós árið 2043.

En þá er spurningin þarf þetta að vera svona? Getum við hraðað þessu ferli? Þarf öll okkar orka að eiga uppruna sinn í stórum virkjunum? Hvað með vind á landi og sjó, sjávarföllin og smávirkjanir? Getum við sparað orku og bætt nýtingu þeirrar orku sem við nú þegar framleiðum?“

Í tilefni af Viðskiptaþingi gaf Viðskiptablað í morgun út sérblaðið Viðskiptaþing - Er framtíðin orkulaus eða orkulausnir.