Evrópusambandið hefur ákveðið að halda áfram viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi þar sem fullnægjandi friður hefur ekki náðst í Úkraínu. BBC News greinir frá.

Fulltrúar Evrópusambandsins segja að horfurnar séu þó jákvæðar og ástandið fari batnandi eftir að vopnahlé var samþykkt 5. september síðastliðinn. Hins vegar sé ástandið ekki enn orðið fullnægjandi.

Viðskiptaþvinganirnar voru lagðar á Rússa þar sem því er haldið fram að þeir hafi veitt aðskilnaðarsinnum í Úkraínu liðsinni með veitingu vopna. Beinast þær gegn mörgum stórfyrirtækjum, þ.á.m. olíufyrirtækinu Rosneft. Rússar neita hins vegar ásökunum og segja ekkert hæft í þeim.