Viðskiptaþvinganir Rússa við Bandaríkin, ríki Evrópusambandsins og önnur valin Evrópulönd er þegar farnar að hafa óvæntar afleiðingar í Rússlandi. Meðal þeirra sem finna hvað mest fyrir heftum innflutningi á matvælum þar eru þau rúmlega 6.000 dýr sem dvelja í Dýragarðinum í Moskvu, stærsta og elsta dýragarði Rússlands. Washington Post greinir frá þessu.

Þar sem að dýrin í dýragarðinum koma hvaðanæva að úr heiminum er mataræði þeirra nokkuð sérhæft. „Þau vilja ekki rússneskan mat,“ sagði Anna Kachurovskaya talsmaður dýragarðsins í samtali við Washington Post um málið. „Innan dýragarðsins erum við að velta fyrir okkur nokkrum spurningum. Við erum að velta því fyrir okkur hvaðan maturinn getur núna komið og hversu mikið það mun kosta okkur,“ sagði Anna.

Í því samhengi er nefnt í fréttinni að skelfiskur sæljónanna í garðinum gæti komið frá Íslandi í stað Noregs og að hægt væri að útvega ýmsa ávexti frá Egyptalandi og Tyrklandi.