Rússar útiloka ekki að grípa til refsiaðgerða gagnvart Íslandi og öðrum þjóðum sem styðja viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gagnvart landinu. Dmitry Peskov, talsmaður forsetans Vladimir Putin, staðfesti þetta í samtali við rússneska vefmiðla.

Auk Íslands gætu lönd á borð við Noreg, Albaníu og Liechtenstein lent í þvingunum frá Rússlandi. Löndin studdu ásamt fleirum viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi sem gilda til 31. janúar 2016.

Ef Rússar kjósa að setja innflutningsbann á íslenskan fisk verða afleiðingarnar gríðarlegar fyrir íslenskan sjávarútveg. Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), segir í samtali við DV að rússland sé stærsti markaðurinn fyrir íslenskar uppsjávarvörur og því sé mikið í húfi.

„Í versta falli yrði sett algjört innflutningsbann og eins og staðan er í dag kæmi það sér verulega illa fyrir sölu á uppsjávarvörum Íslendinga,“ segir Haukur Þór við DV, en mikið af tegundum á borð við síld, loðnu og makríl eru seldar til Rússlands.

„Eins og staðan er núna þá er þetta meira í orði en ekki í borði og við vonum auðvitað að það komi ekki til viðskipta- eða innflutningsbanns,“ segir Haukur.

Miklir fjármunir

Umtalsverðar fjárhæðir er um að ræða að sögn Hauks, en tekjur á árinu 2014 af fiskviðskiptum við Rússland voru um 200 milljónir dollara, eða í kringum 27 milljarðar króna.

„Það væri hins vegar einna verst væri að missa markað þar sem lengi hafa verið stunduð góð viðskipti heilt yfir. Það er almennt góður andi á milli beggja aðila enda sýna útflutningstölur að viðskipti milli íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og Rússa hefur vaxið jafnt og þétt á síðustu 10 árum,“ segir Haukur. Sérstaklega hefur mikið af makríl verið seldur til Rússlands.

„Í kringum 40 prósent af öllum makríl sem Íslendingar veiddu í fyrra var seldur til Rússlands og hann spilar því stórt hlutverk. Það myndi einna helst reynast erfitt að að finna nýjan markað fyrir makríl, sérstaklega þar sem aðrir markaðir sem við höfum verið að selja til, eins og í Nígeríu, eru nú í uppnámi,“ segir Haukur.