BBC News greinir frá því að Evrópusambandið hafi samþykkt að yfirvofandi viðskiptaþvinganir aðildarríkjanna gegn Rússum taki gildi á morgun.

Heimildarmenn BBC News halda því fram að Evrópusambandið ætli sér að viðhalda þrýstingi á Rússland með aðgerðum sínum, en Rússar eru sakaðir um að hafa veitt aðskilnaðarsinnum í Úkraínu liðsinni í baráttu sinni.

Viðskiptaþvinganirnar koma meðal annars í veg fyrir að olíufyrirtæki Rússa hafi aðgang að fjármagni á Evrópumarkaði, en á meðal fyrirtækjanna er olíurisinn Rosneft sem er í eigu rússneska ríkisins. Kemur þetta sér mjög illa fyrir fyrirtækið sem bað rússneska ríkið um 42 milljarða dollara lán í síðasta mánuði. Þvinganirnar munu hins vegar ekki hafa áhrif á gasiðnað.

Rússar hafa varað við því að þeir gætu bannað alþjóðleg flug í gegnum lofthelgi sína verði þvinganirnar að veruleika. Segir Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússa, að slíkt bann gæti keyrt mörg flugfélög, sem þegar eigi í fjárhagsvandræðum, í gjaldþrot.