Óefnislegar eignir 365 miðla námu 5.914 milljónum króna í fyrra og er það 60% af eignum fyrirtækisins. Langstærstur hluti óefnislegra eigna samkvæmt nýbirtu ársuppgjöri felst í viðskiptavild upp á 5.659 milljónir króna. Þetta er jafnframt 57,6% af eignum 365 miðla.

Til samanburðar námu óefnislegar eignir Árvakurs árið 2010 1% af eignum félagsins hvort heldur horft er til eigna samstæðunnar eða móðurfélagsins.

Fram kemur í uppgjöri 365 miðla að við framkvæmd virðisrýrnarprófs á eignum hafi viðskiptavild verið skipt niður á starfsþætti samstæðunnar, ljósvakamiðla og prentmiðla. Þetta hafi verið minnstu sjóðsskapandi einingarnar innan 365 miðla sem viðskiptavild var úthlutað á. Viðskiptavild ljósvakamiðla 365 miðla nam í lok síðasta árs 4.810 milljónum króna en prentmiðla fyrirtækisins 849 milljónum króna.

Eini prentmiðill 365 miðla er Fréttablaðið. Á móti rekur fyrirtækið fimm sjónvarpsstöðvar, þar á meðal Stöð 2, og fimm útvarpsstöðvar.

Í uppgjörinu er tekið fram að virðistrýrnarpróf hafi verið framkvæmt á viðskiptavild 365 miðla í lok síðasta árs með því að reikna endurheimtuvirði. Niðurstaða prófsins hafi sýnt að ekki sé ástæða til niðurfærslu þar sem endurheimtuvirði viðskiptavildar var hærra en bókfært verð.

Hagnaður fyrir tekjuskatt mun lægri en í hitteðfyrra

365 miðlar högnuðust um 250 milljónir króna í fyrra samanborið við 360 milljónir árið 2010. Athygli vekur í uppgjörinu fyrir síðasta ár hagnaður fyrir tekjuskatt var 86 milljónir króna. Í uppgjörinu er tekjuskattur bókfærður til hagnaðar upp á 164 milljónir króna til viðbótar við 86 milljónirnar. Til samanburðar var enginn tekjuskattur bókfærður til hagnaðar hjá 365 miðlum árið 2010.

Í skýringum ársuppgjörsins er tekið fram að yfirfæranlegt skattalegt tap upp á 219 milljónir króna hafi verið nýtt. Á sama tíma hafi tekjuskattur samkvæmt núgildandi skatthlutfalli numið 17 milljónum króna og tímabundinn mismunur numið 38 milljónum króna. Mismunurinn er 164 milljónir króna sem leggjast við milljónirnar 86.

Framtíðin tryggð þrátt fyrir lágt veltuhlutfall

Í uppgjöri 365 miðla er fyrirvari frá endurskoðanda. Í honum er bent á að veltuhlutfall 365 miðla í lok árs hafi verið 0,61. Ef áætlanir félagsins um fjárstreymi næstu ára standist ekki muni ríkja óvissa um rekstrarhæfi þess. Framsetning eigna og skulda í rekstrareikningi sé byggð á áframhaldandi rekstrarhæfi. Upplausnarvirði eigna gæti verið verulega lægra en bókfært verði þeirra yrði starfsemin lögð af. Tekið er fram í ábendingunni að á grundvelli áætlana telji stjórnendur 365 miðla að fyrirtækið sé rekstrarhæft um fyrirsjáanlega framtíð þrátt fyrir lágt veltuhlutfall.

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, sagði í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag, að fyrirtækið hafi gripið til hagræðingar þegar í ljós hafi komið að eftirspurn hafi reynst minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar á meðal var að flytja starfsemina í smærra húsnæði, endursemja um leigu og kaup á efni auk þess að fækka starfsfólki. Hann segir í blaðinu gera ráð fyrir töluverðum bata í rekstri 365 miðla á árinu og sé þróunin það sem af er ári í takti við áætlanir.