Áberandi er að margir viðskipavinir Íbúðalánasjóðs segjast í samtölum við sjóðinn vart geta beðið lengur eftir leiðréttingum lána. Þetta kemur fram í umsögn sjóðsins við boðaða aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar við skuldavanda heimila á Íslandi. Í umsögn ÍLS er farið yfir 10 liði áætlunarinnar en í lið nr. 2 er kveðið á um að meta skuli kosti og galla þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð.

„Í samtölum við viðskiptavini sjóðsins að undanförnu hefur verið áberandi að margir þeirra geta vart beðið lengur eftir leiðréttingum lána. Miklar væntingar eru bundnar við þetta verkefni af hálfu almennings og því brýnt að hafa trausta umgjörð um verkefnið til þess að hraða framkvæmd þess og tryggja samræmi og gagnsæi í vinnubrögðum fjármálastofnana og annarra lánveitenda. Eðlilegt er að slíkur kostur sé skoðaður og metinn,“ segir í umsögn Íbúðalánasjóðs.

Í umsögn sjóðsins er einnig bent á að á Norðurlöndunum og í Bretlandi þekkist varla að íbúðalán séu afskrifuð. „Þetta hefur komið mjög skýrt fram í samtölum starfsmanna sjóðsins við norræna og breska kollega. Þar kemur gjarnan fram sú skýring á lágu vaxtaálagi á húsnæðislánum, að þessi lán séu nánast áhættulaus. Þau séu sjaldnast afskrifuð heldur greiðist að fullu,“ segir í umsögn ÍLS.

Samkvæmt umsögninni hafa frá árinu 2001 verið í gildi reglu um innheimu krafna sem glata veðtryggingu við nauðunarsölu. „Dugi andvirði eignarinnar ekki fyrir kröfunni er stofnað svokallað glatað veð sem haldið er til haga þar til krafan fyrnist. Krafan er hvorki vaxtareiknuð né verðbætt en tilvist hennar kemur í veg fyrir að fyrirgreiðsla fáist hjá Íbúðalánasjóði. Hægt er að sækja um afskrift að liðnum 5 árum ef skuldari getur ekki greitt kröfuna. Kjósi skuldari að greiða reiknast hver greiðsla tvöfalt þannig að hægt er að fá kröfuna afskrifaða gegn því að greiða helming hennar. Eftir að krafa hefur verið afskrifuð getur viðskiptavinur sótt að nýju um fyrirgreiðslu hjá sjóðnum ,“ segir í umsögn ÍLS.