Anna Felländer, fyrrverandi aðalhagfræðingur hins sænska Swedbank, segir verslunina verða að aðlagast neysluvenjum
aldamótakynslóðarinnar. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli hennar á ársfundi Verslunar og þjónustu í vikunni, en þar ræddi hún einnig um þá fækkun starfa sem gæti orðið í greininni .

„Það eru margir möguleikar á samstarfi við vettvang fyrir deilihagkerfið, Airbnb er til dæmis hægt að nota í samfloti við hótel til að jafna út umframeftirspurn svo það getur verið ábati fyrir bæði hefðbundna söluaðila og þá sem taka þátt í deilihagkerfinu að vinna saman,“ segir Anna og nefnir sem dæmi sænskt fyrirtæki sem selur verkfæri.

„Clas Ohlson býður viðskiptavinum sínum upp á eigin deilivettvang, þar sem viðskiptavinir geta leigt verkfæri sín hver öðrum. Þetta er einstaklega gott dæmi um það hvernig fyrirtæki geta nýtt stærð sína og fjölda viðskiptavina til að halda þeim innan viðskiptahópsins með eigin deilihagkerfi. Þannig halda þeir í viðskiptavinina.“

Mikill vöxtur í nýju verslunarrými

Anna bendir á að þróunin í verslunarhúsnæði sé að því er virðist þversagnarkennd, en á sama tíma og netverslun eykst hratt, þá sé einnig á teikniborðinu mikill vöxtur í nýju verslunarrými í Svíþjóð.

„Margir gætu kannski hugsað sér að þetta muni þýða að mikil offjárfesting sé í þessum nýju verslunarmiðstöðvum, sem allar eigi eftir að fara á hausinn, en það gæti líka verið önnur skýring,“ segir Anna.

„Áfram gætu verið mikil verðmæti falin í verslunarhúsnæði, þó að notkunin á því breytist með tilkomu nýrrar tækni, sem þyrfti sérhæfðara starfsfólk til að stýra. Til dæmis gæti gervigreindartæknin, samtvinnuð við sýndarveruleikabúnað sem settur yrði upp í verslunum, gefið notandanum tækifæri til að átta sig betur á vörunni og hvernig hún myndi nýtast honum best.“

Anna segir að þannig séu skilin milli net- og staðbundinnar verslunar einnig að verða óljósari og það í báðar áttir. „Til dæmis hafa kannanir sýnt að 31% af sænskum viðskiptavinum skoðar vöruna á netinu áður en þeir fara að versla í staðbundnu versluninni,“ segir Anna en hún notar hugtakið stafrænn áhrifavaldur yfir þessa þróun.

Svo á þennan hátt er hægt að nýta stafrænu tæknina til að auka virði þeirrar vöru sem þú selur í verslununum. En á sama tíma eru verðin sífellt gegnsærri, því viðskiptavinurinn getur betur borið saman verð svo samkeppnin eykst.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .