Farsímafyrirtækið Nova hlaut hæstu einkunn allra fyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni, en niðurstöður hennar fyrir árið 2012 voru kynntar í dag.

Nova var með 71,6 stig af 100 mögulegum. Nova er því heildarsigurvegari Íslensku ánægjuvogarinnar árið 2012 líkt og árin 2011 og 2010 og var jafnframt sigurvegari í flokki farsímafyrirtækja. Fast á hæla Nova kemur ÁTVR sem er efst flokki smásöluverslana með einkunnina 71,1.

Í fyrsta sæti í flokki banka er Landsbankinn með einkunnina 62,9 og í flokki tryggingafélaga er Tryggingamiðstöðin með hæstu einkunnina, 69,0. HS orka er í fyrsta sæti raforkusala með einkunnina 62,1 og Atlantsolía er efst meðal olíufélaga með einkunnina 68,8.

Bauhaus er með hæstu einkunnina meðal byggingavöruverslana, 66,0. Krónan er í fyrsta sæti í flokki matvöruverslana með einkunnina 63,6 og Lyfja sigrar í flokki lyfjaverslana með einkunnina 66,2.

Þetta er fjórtánda árið sem ánægja viðskiptavina íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti. Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 28 fyrirtæki í 9 atvinnugreinum og byggja niðurstöður á 200-600 svörum viðskiptavina hvers fyrirtækis.