Viðskiptavinum Uber á heimsvísu fjölgaði um 150% á öðrum ársfjórðungi þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í frétt BBC . Tekjur fyrirtækisins námu 1,75 milljörðum dollara á tímabilinu og rúmlega tvöfölduðust frá öðrum ársfjórðungi árið 2016.

Þrátt fyrir að tekjur Uber hafi aukist nam tap félagsins 645 milljónum dollara á ársfjórðungnum. Tap félagsins dregst þó saman um 9% frá fyrstu þremur mánuðum ársins og um 14% frá sama ársfjórðungi í fyrra.

Þá fjölgaði viðskiptavinum um 17% milli ársfjórðunga. Viðskiptavinir greiddu samtals 8,7 milljarða dollara fyrir þær ferðir sem þeir fóru á tímabilinu frá 1. apríl til 30. júní.