Hæstiréttur Bretlands hefur skikkað efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) til að birta 85 þúsund skjöl sem tengjast rannsókn deildarinnar á breska fasteignajöfrinum Vincent Tchenguiz. Rannsóknin var liður embættisins í skoðun á falli Kaupþings og viðskiptum Vincents og bróður hans Roberts Tchenguiz við bankann. Bræðurnir voru vildarvinir Kaupþings í Bretlandi áður en bankinn fór í þrot og meðal helstu lántaka þar. Robert Tchenguiz átti á sama tíma stóran hlut í Existu, stærsta hluthafa Kaupþings.

Þeir voru báðir handteknir við rannsókn embættisins árið 2011 og færðir til yfirheyrslu. Lögreglan lét mál sitt á hendur VIncent niður falla í fyrra þegar upp komst um galla á forsendum rannsóknarinnar. Bræðurnir hafa sagt að rannsóknin hafi kostað þá stórfé í töpuðum viðskiptatækifærum, en þeir hafa átt í miklum erfiðleikum með að ganga frá samningum frá því að hún hófst. Vincent Tchenguiz fór í mál við SFO og krefst 200 milljóna punda, jafnvirði 39 milljarða íslenskra króna, í skaðabætur.  ann hefur m.a. krafist þess að SFO leggi fram gögn sín í málinu.

Gögnin sem SFO þarf nú að leggja fram eru talsvert fleiri en stefnt var að opinbera. Samkvæmt umfjöllun City A.M. ætlaði efnahagsbrotadeildin aðeins að svipta hulunni af um 20 þúsund gögnum.