Óhætt er að segja að Kvika banki hafi komið af krafti inn á innlendan innlánamarkað í mars á síðasta ári þegar bankinn kynnti til leiks fjártæknilausnina Auði. Auður, sem er einungis á netinu, bauð og býður enn upp á mun hagstæðari vexti á óbundnum innlánsreikningum en hjá öðrum bönkum en viðtökur við þjónustunni hafa vakið töluverða athygli. Í lok þriðja ársfjórðungs námu innlagnir inn á reikninga hjá Auði 13,8 milljörðum króna auk þess sem innkoman hefur haft töluverð áhrif á innlánakjör stóru bankanna þriggja.

Þegar Auður var sett í loftið í mars var vaxtamunur milli stýrivaxta og vaxta á óbundnum innlánum að meðaltali 3,58 prósentustig og þar af var munurinn 4,2 prósentustig hjá tveimur bankanna. Um miðjan janúar á þessu ári var munurinn hins vegar kominn niður í 1,53 prósentustig að meðaltali á lægstu upphæðum og 1 prósentustig á hæstu upphæðum.

Að sögn Ólafar Jónsdóttur, forstöðumanns, fjártækni hjá Kviku og forstöðumanns Auðar, varð hugmyndin til í stefnumótunarvinnu sem hófst skömmu eftir að Kvika sameinaðist Virðingu.

Ein af niðurstöðunum var að það væru tækifæri til staðar á innlánamarkaði þar sem vaxtamunur á Íslandi hefur verið hár og sérstaklega í erlendum samanburði. Þegar það er skoðað nánar sést að munurinn liggur miklu frekar í innlánunum heldur en í útlánum. Það sem við vissum var að að með okkar innviði og tækni þá hefðum við tækifæri til að setja þessa þjónustu á netið með tiltölulega litlum tilkostnaði þannig við gætum boðið betri vexti.

Hugmyndin sem við fórum af stað með var því að viðskiptavinurinn gæti þjónustað sig sjálfur og þar sem kostnaðurinn er lægri ætti hann einnig að njóta þess þannig að báðir aðilar njóti ábatans.“

Fram úr björtustu vonum

Að sögn Ólafar var ákvörðunin um að hefja Auðar-verkefnið tekin í nóvember árið 2018 með það að markmiði að setja hana í loftið vorið 2019. Á einungis fimm mánuðum tókst að koma Auði í loftið eins og lagt var upp með. Ólöf segir að verkefnið hafi í raun gengið eins vel og vonast var til.

„Við erum með þessa innviði innanhús þannig þó við séum ekki með útibúanet hjá Kviku þá voru forverar bankans með það, þannig að viðskiptabankaþekkingin og öll kerfin eru til staðar. Þegar við fórum af stað og erum að stofna nýtt „útibú“ fyrir Kviku þá gekk það mjög smurt. Við vorum ekki að lenda á sömu veggjum og aðilar sem væru að byrja frá grunni heldur vorum við að tengja saman hluti sem við kunnum. Helsta áskorunin var því að missa ekki trúna að við gætum gert þetta á fimm mánuðum. Auðvitað koma upp hlutir sem maður heldur að muni tefja ferlið en þá þarf einfaldlega að vera fljótur að hugsa, finna lausnir og halda áfram.

Það sem skipti ótrúlega miklu máli við að þetta gekk svona vel var að það var rosalega mikill áhugi til staðar hjá öllum sem komu að þessu verkefni að klára það. Fólk vildi sjá eitthvað nýtt, sjá samkeppni á bankamarkaði og var spennt að sjá hvernig viðtökurnar yrðu. Það voru allir að hlaupa í sömu átt og ég held að það hafi skipt svo miklu máli við að þetta datt ekki niður. Þegar það næst að allir gangi í sama takti þá ganga hlutirnir vel.“

Óhætt er að segja að Auður hafi fengið góðar viðtökur um leið og hún fór í loftið. Strax á fyrsta degi höfðu yfir 1.500 manns stofnað reikning. Að sögn Ólafar fóru viðtökurnar fram úr björtustu vonum en nú þegar um einn og hálfur mánuður er eftir af fyrsta starfsári Auður hafa um 60% fleiri stofnað reikning en markmiðið var fyrsta árið.

„Við höfðum mikla trú á þessari vöru og vissum að við værum með góðan hlut í höndunum þannig að við áttum alveg von á því að fá góðar viðtökur. Við fengum hins vegar miklu betri viðtökur en við þorðum að vona.

Eftir að þessari miklu skráningu í byrjun var lokið hefur samt sem áður verið mjög stöðugur vöxtur. Sú breyting sem við sjáum milli mánaða eru í raun hefðbundnar árstíðarsveiflur. Það er t.d. mjög mikið að gera í janúar en minna að gera yfir sumarmánuðina sem er í samræmi við hvar fólk er á hverjum tíma.“

Nánar er rætt við Ólöfu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .