Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,73% í viðskiptum dagsins. Veltan á hlutabréfamarkaði nam 3,16 milljörðum og endaði vísitalan í 1.713,78 stigum.

Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði hins vegar um 0,19% í 12,3 milljarða viðskiptum og endaði hún í 1.246,92 stigum.

Hagar og Tryggingamiðstöðin hækkuðu mikið

Gengi hlutabréfa Haga hækkaði um 2,54% í 224 milljón króna viðskiptum.

Fæst nú hvert bréf félagsins á 54,45 krónur, en þetta var mesta hækkunin í kauphöllinni í dag fyrir utan óveruleg viðskipti með bréf Össurar.

Þar á eftir nam hækkun á gengi hlutabréfa Tryggingamiðstöðvarinnar 1,98% í 355 milljón króna viðskiptum.

Marel og VÍS einu sem lækkuðu

Einu félögin sem ekki hækkuðu í viðskiptum dagsins sem voru töluverð í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabanka Íslands sem kynnt var í morgun voru Marel og VÍS.

Lækkaði gengi bréfa Marel um 0,85% í 343 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins 234,00 krónur. Verð hlutabréfa í VÍS lækkaði um 0,06% í 14,5 milljón króna viðskiptum og er hvert bréf félagsins nú á 9,06 krónur.